Næsta verkefni Alþýðuóperunnar – Rakarinn. Auglýst eftir umsóknum um áheyrn.

Alþýðuóperan sækir nú fjármagn til að setja upp verkið Rakarinn. Ef nægt fjármagn fæst inn í verkefnið verður Rakarinn frumsýndur næsta sumar. Við munum þá halda áheyrnarprufur í byrjun febrúar og biðjum við áhugasama um að byrja að huga að umsóknunum sínum, en umsóknargögn eru eftirfarandi:

  • Upptökur, ekki fleiri en þrjár.  Ekki er ætlast til að upptökurnar séu í pró gæðum.  Mikilvægt er að upptökurnar sýni getu söngvarans og séu alls ekki breyttar í hljóðveri á nokkurn hátt.
  • Ferilská
  • Ferilsaga (eins og hún myndi birtast í tónleikadagskrá)
  • Mynd

Áhugasamir geta sent inn umsókn strax ef þeir vilja en umsóknarfrestur verður auglýstur síðar. Umsóknir skulu sendast á althyduoperan@gmail.com .  Áheyrnarnefnd mun velja  þá sem komast í áheyrn úr umsóknum. Öllum umsóknum verður svarað.

Um sýninguna

Rakarinn er stytt og breytt útgáfa af Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini. Það er mjög metnaðarfullt verkefni að ramma þessa sýningu innan þeirrar hugmyndafræði sem Alþýðuóperan vinnur eftir. Þrátt fyrir að við skulum velja gamla hefðbundna ítalska óperu verður ekkert gamaldags eða hefðbundið við uppfærsluna. Við leggjum höfuðáherslu á að gera sýningar okkar aðgengilegar og skapa mikla nálægð við áhorfendur. Sýningin verður flutt á íslensku, enda hjálpar það okkur mikið að ná til áhorfenda að þurfa ekki að notast við textavélar eins og oft er gert í óperum. Notuð verður þýðing sem til er eftir Þorstein Valdimarsson, en verkið verður töluvert stytt, útsetningar verða í höndum Jóns Gunnars Biering Margeirssonar. Markmið okkar er að fá inn fólk á sýninguna okkar sem alla jafna myndi ekki sækja óperusýningar og að nálgast óperuna á nýjan og spennandi hátt.

search previous next tag category expand menu location phone mail time cart zoom edit close