Alþýðuóperan mun á næsta starfsári í samstarfi við Íslensku óperuna setja upp nýja óperu sem nefnist Bergmálsklefinn eftir enska tónskáldið Michael Betteridge og Ingunni Láru Kristjánsdóttur. Verður verkið frumsýnt í janúar 2018. Óperan fjallar m.a. um dómhörkuna á samfélagsmiðlum með beinskeittum hætti og höfundar nota Twitter til að sýna skilin milli þess sem gerist í heimi samfélagsmiðla og raunveruleikans. Áhorfendur geta tekið þátt með því að tísta beint inn í sýninguna. Söngvarar verða Ísabella Leifsdóttir, Rosie Middleton og Jónína Björt Gunnarsdóttir ásamt einum karlsöngvara sem verður kynntur síðar.
Áheyrnarprufur fyrir það hlutverk fara fram fljótlega og er áhugasömum bent á vef óperunnar fyrir frekari upplýsingar.