Íslenska twitter óperan lofsömuð í Bretlandi

Íslensk-ensk ópera hefur fengið lofsamlega gagnrýni eftir sýningarferð um Bretland þar sem íslenskum listamönnum er hrósað í hástert. Blaðamaður hjá breska dagblaðinu The Independent segir hana eina af bestu óperusýningum sumarsins.

Twitter óperan #bergmálsklefinn er eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur og Michael Betteridge en að sýningunni standa Alþýðuóperan og breska tón-leikfélagið Aequitas Collective. Óperan var frumsýnd í Tjarnarbíói í vor og hefur nú verið sýnd á óperuhátíð í London, Manchester og Hull og var uppselt á flestar sýningar. Blaðamaðurinn og söngvarinn Peter Brathwaithe skrifaði í The Independent um óperuna og kallaði hana eina bestu óperu sumarsins í Bretlandi. Einnig var fjallað um verkið hjá BBC þar sem útvarpskonan Phillippa Perry sagðist fá gæsahúð við að heyra textann og tónlistina. Aðrir gagnrýnendur lofsömuðu verkið og gaf tímaritið North West End verkinu fjórar stjörnur og segir gagnrýnandinn Rachel Foster þar að „söngurinn er eftirminnilega fallegur, allir söngvararnir hafa ótrúlegar raddir…“ og nefnir sérstaklega að „það er svo mikill sprengikraftur í rödd Ísabellu, ég er viss um að hún gæti brotið gler“ . Gagnrýnandinn Lydia Bernsmeier-Rullow skrifaði í Canal Street News: „#bergmálsklefinn er ópera fyrir fólk sem hefur aldrei farið á óperu áður eða líkar illa við óperur! Hér er saga sem á við í dag; nútíma ástarsaga með skörpum texta. Þetta verk er aðgengilegt öllum!“ Ingunn Lára Kristjánsdóttir, Ísabella Leifsdóttir og Jónína Björt Gunnarsdóttir voru sérstaklega nefndar hjá gagnrýnandanum Matthew Cleverly sem gaf verkinu fjórar stjörnur: „Ísabella Leifsdóttir (Finna) og Jónína Björt Gunnarsdóttir (Freyja) stóðu upp úr í sýningunni. Ísabella var sérstaklega gamansöm og daðraði við áhorfendur í gervi samfélagsmiðlastjörnunnar Finnu. Jónína Björt lék og söng með mikilli einlægni og gekk vel að miðla þunglyndu persónunni Freyju. Einnig má lofsama ljóðrænum skrifum Ingunnar Láru. Áhorfendur náðu strax að tengja við textann hennar um óendurgoldna ást.“

Verkið var styrkt af Sviðslistasjóði, Listamannalaunum, Arts Council England og Reykjavíkurborg.

search previous next tag category expand menu location phone mail time cart zoom edit close