Verndari Alþýðuóperunnar

Sigríður Ella Magnúsdóttir

Óperusöngkona

Sigríður Ella Magnúsdóttir er ein af ástsælustu söngkonum Íslands. Hún nam söng bæði hér heima og erlendis. Sigríður Ella er búsett á Bretlandi og hefur mestan hluta starfsævi sinnar starfað erlendis. Þó hefur hún gefið sér tíma til að taka þátt í óperuuppfærslum hjá Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni þegar til hennar hefur verið leitað og haldið einsöngstónleika víða um land. Eiginmaður Sigríðar Ellu, Simon Vaughan er einnig starfandi óperusöngvari og hafa þau hjón oft sungið saman á tónleikum bæði hér heima og erlendis.

Jólaplatan Með Vísnasöng kom fyrst út 1977 og varð metsöluplata það ár. Árið 1997 var hún endurútgefin á geislaplötu enda hafði hún þá verið ófáanleg í verslunum í mörg ár. Flutningur Sigríðar Ellu á lagi Sigvalda Kaldalóns Nóttin var sú ágæt ein hringir jólin inn í hugum margra Íslendinga því í mörg ár var sjónvarpsupptaka af flutningnum sýnd í Ríkissjónvarpinu á aðfangadagskvöld.

Hlutverk Sigríðar Ellu er mikilvægt innan Alþýðuóperunnar, þar sem hún veitir starfsseminni ráðgjöf um uppsetningar, aðferðir við áheyrnarprufur og fleira. Hún hefur ómetanlega starfsreynslu af óperuheiminum sem Alþýðuóperan nýtur góðs af.

search previous next tag category expand menu location phone mail time cart zoom edit close